Unnið í garðinum

Krakkarnir voru í garðinum með pabba sínum í gær og gengu frá Björkinni, eða því sem eftir er af henni og grófu frá rótinni. Ebba var í pollagalla og stígvélum í fyrsta sinn og skemmti sér vel.

út í garði

Í pollagalla í garðinum um morguninn.

 

rótin af björkinni

Svo kom sólin og fötunum fækkaði.....


Reykjavíkurferð

Þá erum við búin að fara suður um heiðar. Ebba fékk háan hita á þriðjudaginn var og var með hita fram á fimmtudag, við ákváðum samt að fara suður. og eftir hádegi á fimmtudag keyrðum við af stað, ég og krakkarnir. Strákarnir stóðu sig frábærlega við að hafa ofan af fyrir Ebbu á leiðinni og við komum í íbúðina sem ég leigði um kvöldmatarleytið. Mamma gisti svo hjá okkur um nóttina og Ebba rauk upp í hita og var pirruð og lasin alla nóttina. Um morgunin var hún hitalaus og er búin að vera það síðan, en voða lítil og pirruð og hangir bara í mömmu sinni. Strákarnir fengu samt að njóta dvalarinnar í höfuðborginni, Jonni var hjá Haraldi vini sínum yfir nótt og Veigar fór um hádegið á föstudag til Hafnarfjarðar þar sem hann var á þjálfaranámskeiði í siglingum fram á sunnudag.

Veigar átti afmæli á föstudaginn og fór út að borða í hádeginu áður en hann fór á námskeiðið. Við Ebba fórum svo á föstudagskvöldið í frænkukvöld heima hjá Herdísi frænku minni, það var alveg meiriháttar gaman. Flottar frænkur allar saman og skemmtilegar. Ég keypti frábæra peysu af Öldu og nú verð ég að fara að fá kynningu hérna fyrir norðan því allar vinkonur mínar vilja svona peysur líka.  Fermingin hennar Hildar var svo á sunnudaginn og fór vel fram, Hildur og Anna spiluðu saman á flautu og píanó við afhöfnina og allt var mjög hátíðlegt og flott. Nonni minn kom suður á laugardaginn og keyrði með okkur norður sem var kannski eins gott því ég var orðin alveg rosalega þreytt eftir margar vökunætur með litlu stelpunni minni. Við vorum ekki komin heim fyrr en klukkan 10 í gærkvöldi og nú fer ég ekki í ferðalag með þessa stelpu neitt á næstunni....... Kolla grasa bjargaði okkur með góð ráð og dropa og kunnum við henni þakkir fyrir það.Happy

Mamma reddaði mér nú alveg fyrir sunnan, var með Ebbu á móti mér og hvíldi mig. Við fórum líka að hitta hana Emilíu Margréti og foreldra hennar, sem var gaman en fátt er svo með öllu illt..... pirruð stelpa varð til þess að ég keypti ekki neytt, fór ekki í búðaráp eða neinn óþarfa....  Nú ætlum við hins vegar að koma reglu á hlutina enn og aftur, Ebba veit það ekki ennþá en brjóstagjöf í tíma og ótíma yfir nóttina er ekki lengur á dagskrá. Nú verður unnið að því að koma hlutunum aftur í það horf sem var fyrir flensu, sjúss fyrir svefnin og ekki aftur fyrr en að morgni.  Það mun taka nokkrar nætur með öskrum en borgar sig fyrir svefn foreldranna. Whistling

Takk fyrir þið öll sem við hittum fyrir sunnan, það var gaman að sjá vini og vandamenn og eiga með ykkur stund.


Að segja fordómalaust frá raunveruleikanum!

Þetta er yfirskriftin á grein í 24 stundum á laugardaginn var.  Talað var við sænskan mann (fréttamann) um það hvernig fjölmiðlar hafa áhrif á umræðuna um innflytjendur.  Hann kom eiginlega orðum að því sem ég hef verið að reyna að tjá mig um stundum en ekki tekist alltaf sem best.  Innihaldið er í stuttu máli að blaðamenn verði að átta sig á hvenær þjóðerni skipti máli fyrir frétt og hvenær ekki. Að hægt sé að skrifa sömu frétt á marga vegu og að framsetning hennar hafi mjög mikið að segja og geti bæði hvatt til og dregið úr samlögun innflytjenda í samfélagi. Það kom fram að í siðareglum blaðamanna í Svíþjóð er ákvæði um að blaðamenn tiltaki ekki aldur, kyn, trú eða pólitískar skoðanir, þjóðerni eða kynþátt fólks nema það tengist efni fréttanna beint.

Áhugaverð  lítil grein og þörf umræða hér á landi líka, hver man ekki eftir umræðunni um utanbæjarmanninn..... eftir hverja helgi áratugum saman voru það utanbæjarmenn sem slógust og brutu af sér, allavega á Akureyri. Það stóð í Degi og ég ætti að vita það, að þar var ekki farið með fleipur.Cool

Notum sólina og góða veðrið á meðan það varir.


Vestfiskar konur!!!!

Ég er nú algjör byrjandi í bloggi en þetta smá kemur og síðustu vikur hef ég verið að skoða mig um á blog.is og ég verð nú að segja það að konur fyrir vestan eru mínar uppáhaldsbloggarar, Matta og Ásthildur fremstar í flokki, það er nú ekki alltaf sem ég set inn comment, en alltaf er jafn gaman að lesa leiftrandi snilldina sem þessum konum dettur í hug. Og ekki skemmir nú fyrir myndirnar hennar Ásthildar af fjöllunum, börnunum og blómunum. Það er bæði hollt og gott fyrir þunglyndis haus eins og mig að fylgjast með opnu, hugmyndaauðugu fólki tjá sig. Ekki að það komi sérstaklega á óvart að lesa flottar færslur frá konum fyrir vestan, það hefur löngum verið ljóst að þar búa alvöru kerlur og karlar og sýndi framtak stelpnanna, "óbeisluð fegurð" það best. Strákarnir mínir eru líka stoltir yfir því að vera hálfir "vestfiskar" þarf að athuga hvaða tegund það er.

Allt er við það sama hér, ég kenni mínum flottu nemendum, sæki minnsta barnið, rella í stóru börnunum og stundum kallinum, set í þvottavél, elda og geng aldrei frá eftir mig, þá er komið að hinum. Stundum sleppi ég því líka að rella í strákunum (öllum 3) því þeir eru svo sannarlega oft svo góðir og duglegir að þess gerist ekki þörf. Í dag skín sól og vor er í lofti, þá fór ég í kjól og fallega skó og rölti í vinnuna og lífið varð dásamlegt í einu vetfangi. Tounge

 


Vor í lofti

Fjölskyldan átti rólega helgi í Hrísey, Veigar var eins og venjulega hjá Nóa, aðallega í tölvunni en við hin notuðum góða veðrið til þess að fara í göngutúra um eyjuna. Ég fór svo á frábært bútasaumsnámskeið í gærkvöldi og kom sjálfri mér á óvart með hvað ég væri flínk Wink Ég ákvað að slá til þegar vinkona mín bað mig að koma með sér og það var æðislegt að drífa sig af stað. Ótrúlega gaman að skoða öll þessi flottu efni og liti og ekki síst að sjá góðan árangur. Ég fer aftur eftir viku og klára púðann. Smile

 


Eftir helgar rapport

Að mestu leyti góð helgi, sól og gott veður og vor í lofti. Veigar fór í keppnisferð til Reykjavíkur og lenti í árekstri á svellinu og laskaðist á hendi, er í gifsi núna, ástandið verður endurmetið í vikulokin. Hann er allvega búinn að sjá bráðamóttökuna á Landspítalanum Wink En það var sem sagt einhver spurning um hvort það væri sprunga í beini eða ekki. Á meðan berum við Jonni út Fréttablaðið og vöknum snemma....... Jonni græðir á óheppni bróður síns og safnar peningum fyrir Danmerkurferð sumarsins. Mér skilst að þá eigi að kaupa eitt og annað, aðallega Lego.

 


Hugleiðingar.....

j0433163Ég skil ekki neitt í lífinu þessa dagana, fólk er hrifsað í burtu í blóma lífsins á meðan aðrir eru saddir lífdaga, tilbúnir að fara en fá ekki. Hugur minn er hjá elskulegri frænku minni sem var að missa manninn sinn. Það er svo sárt til þess að hugsa, svo ósanngjarnt. Við mannfólkið erum eitthvað svo óskaplega lítilsmegnuð á svona stundum og getum ekkert gert nema vera góð hvort við annað og njóta samvista við vini og ættingja á meðan við getum.


Afmæli Ebbu

Á sunnudaginn varð Ebba Þórunn 1. árs. Það var að sjálfsögðu bakað í tilefni dagsins og litla stelpan fékk margar góðar gjafir, við þökkum kærlega fyrir okkur.afmæli Nú eru líka komnar inn nokkrar myndir úr páskafríinu, þær eru í albúmi hér til hliðar. Annars eru allir bara glaðir hjá okkur, lífið komið í fastar skorður eftir fríið og Ebba er að verða góð í handleggnum. Við fylgjumst svo með líðan Dísu ömmu í gegnum mömmu en væntanlega á gamla konan ekki mjög langt eftir, en hún fær góða umönnum á sjúkrahúsinu á Ísafirði og auðvitað er mamma hjá henni og sinnir henni vel nú sem endranær. 99 ár er langur tími og komið að leiðarlokum eftir mörg góð ár við góða heilsu.


Páskar II

Víkur nú sögunni til Ísafjarðar. Við Ebba vorum hjá mömmu fram á miðvikudag þegar Nonni og Veigar mættu á svæðið... Jonni var að sjálfsögðu hjá Ragnari og þurfti lítið að hitta mömmu sína. Nú svona klukkustund eftir að þeir feðgar mættu í bæinn hafði Veigari tekist að detta í sjóinn, hann var um borð í Áróru og var sendur upp á bryggju, hann kom kaldur og sár heim til ömmu sinnar og mér leist nú ekki vel á handlegginn á honum sem bólgnaði upp og strákur kvartaði stórum. Veigar er hins vegar vanur maður og fann sjálfur að hann væri ekki brotinn, sagðist ekki þurfa lækni, þetta væri vont en það myndi batna. OK mamman sættist á það. Skírdagur gekk vel fyrir sig, falleg ferming hjá Björk og frábær veisla í Edinborgarhúsinu á eftir. Ekkert kom uppá nema Jonni og Dagrún læstust inni á efri hæðinni á bak við hlið og þurftu að klifra yfir. Föstudagurinn langi rann upp og ég fór á dalinn með börnin, allir skemmtu sér vel, pabbinn var í Áróru með Búbba svo allir fengu eitthvað við sitt hæfi. Undir kvöldmat voru allir að gera sig til fyrir matarboð hjá Hörpu og Gumma og prílar ekki litla Ebba þá upp í neðsta þrepið í stiganum á Góustöðum og dettur. Við enduðum á sjúkrahúsinu með hana og væntanlega hefur hún skekkst í olnbogaliðnum, því var reddað en Ebba var ekki alveg sátt samt. Fann greinilega ennþá til og svaf illa. Veigar á svo góðar frænkur sem tóku hann með á Aldrei fór ég suður, og hann var okkar fulltrúi þar þetta kvöld. Laugardagur rann upp og Jonni komin með uppköst og niðurgang...... hmmmm..... en er hraustur og hresstist þegar á leið daginn, en ekki Ebba, hún notar hægri hendina til þess að skríða og gat ekki beitt henni þarna, við höfum langa reynslu að börnum (strákum) sem fara úr liði í olnboga og þeir voru alltaf eins og nýir stax og kippt hafði verið í liðinn svo við fórum aftur á FSÍ og núna voru settar á stúlkuna umbúðir og við boðuð daginn eftir til að hitta yfirlæknin. Það varð svo niðurstaðan að hún hefði marist illa og gefa þyrfti þessu tíma. Litla stýrið hefur látið halda á sér að mestu þessa dagana, er hvekkt og vill ekki fara á gólfið enda ennþá vont að bera fyrir sig hendina. Svo kom nú stórt mar í ljós á kollinum líka.

Við Nonni náðum að sjá Eyvöru og Karlakórinn á Aldrei fór ég suður, hitta fólkið okkar og hafa það ágætt svona miðað við..... það var gott að vera á Góustöðum og fjörðurinn skartaði sínu fegursta flesta dagana, en heldur voru allir glaðir þegar við komum heim á mánudaginn, það er bara alltaf best að vera heima þegar fólk er ekki alveg hresst. Mamman var til dæmis ekki búin að sofa vel í nokkrar nætur og var orðin skapstygg og þreytt. En síðan hafa allir sofið í sínu rúmi, líka ungfrú Ebba og þá hvílast allir betur.

Ömmurnar mínar elskulegar eru svo kafli út af fyrir sig, Alla amma á sjúkrahúsi á Selfossi, gamla  Langa, kom heim á miðvikudaginn fyrir páska en fór aftur á sjúkrahúsið á Ísafirði á laugardaginn og verður væntanlega þar. Hinar eru hressar og eiginlega ótrúlegar miðað við aldur og allt, rosalega var gaman að hitta þær allar og afana mína líka í þessari ferð. Þetta er ótrúlegt ríkidæmi hjá konu um fertugt að eiga ennþá þetta góða fólk að, á lífi. Ég vona að ég geti átt rólegt kvöld með vinum mínum í ellinni  Tounge   ég treysti á að þau verði þarna ennþá, gefist ekki upp á mér og mínum.... nei segi bara svona....Allavega allir saman, takk fyrir mig og mína, það er alltaf gott að koma "heim" það verður vonandi betra ástand á fjölskyldunni næst.


Páskar I

Nú er ferðalagið á enda. Það byrjaði með því að við fórum fljúgandi suður, ég, Ebba og Jonni. Anna sótti okkur á flugvöllinn og leiðin lá beina leið í Toys´r´us, Jonni var glaður með það. Við brunuðum svo í Þykkvabæinn og gistum hjá Dagrúnu í góðu yfirlæti. Takk fyrir það Dagrún það var virkilega gott að vera í Oddsparti. Jarðarförin hans Jónasar afa fór vel fram í litlu fallegu kirkjunni og landið skartaði sínu fegursta. Eftir erfidrykkuna fórum við aftur í Þykkvabæinn og á sunnudeginum keyrðum við með mömmu og Didda aftur til Reykjavíkur með viðkomu í Eden en þangað hef ég ekki komið síðan ég var lítil. Það var bara flott, ís og fínerí. Ég fór svo vestur með mömmu, við gistum eina nótt í Borgarfirði og vorum komin til Ísafjarðar um miðjan dag á mánudag. Ferðin gekk framar vonum, Ebba var að mestu leyti glöð í bílnum svo greinilega er hún að sættast við þennan ferðamáta.

Allt gekk stórslysalaust fyrir sig í þessum helming ferðarinnar, Jonni fékk smá áverka þegar hann reyndi að "renna" sér upp rennibraut með klaka í  á Laugalandi en það lagaðist fljótt. Framhaldið kemur seinna í dag, þarf að fara á fund núna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband