11.11.2008 | 12:06
40 þúsund.......
Hvernig eiga menn sem eru á ofurlaunum og kunna ekkert annað að bjarga almenningi í kreppu? Einn nýju bankastjóranna lækkaði launin sín um rúmlega mánaðarlaun verkafólks.... ægilega góður? Mér verður hugsað til atviks sem átti sér stað fyrir löngu. Ég var í veislu með mörgu góðu fólki, meðal annars fyrrverandi þingmanni og ráðherra. Ungt fólk var að tala um verðbólguna, lág laun og almenna erfiðleika við að láta enda ná saman. Hjón um þrítugt, skyld manninum, með 3 börn, í miðjum íbúðarkaupum og bæði í fullri vinnu á lágmarkslaunum tjáðu reiði sína um ástandið..... sá gamli var mjög hissa... og sagði þessa óborganlegu setningu við konuna "já en elskan mín, þú ert nú með þín 40 þúsund, er það ekki?" Það voru þá nýumsamin lágmarkslaun. Maðurinn var ekki í neinum takti við almenning, hann hafði aldrei í sínu fullorðins lífi lifað á lágmarkslaunum, líklega aldrei þurft að hugsa sig um þegar hann verslaði í matinn (ef hann gerði það nokkurn tíma sjálfur) og hann virtist ótrúlega hissa á þessu unga frændfólki sínu, hvað var fólkið að kvarta eiginlega. Þessi ágæti maður var frekar notalegur, gat rætt um listir og pólitík af mikilli innlifun EN hann lifði og hrærðist í ÖÐRUM raunveruleika en við hin. Og þarna liggur hundurinn grafinn...... hvernig eiga þeir sem hafa allt sitt líf lifað í fílabeinsturni að skilja hvað 20 þúsund króna hækkun á láni getur gert mikinn skaða hjá fólki sem á EKKERT afgangs? Skoðum ráðherralista ríkisstjórnarinnar, hvað gerði þetta fólk áður en það fór á þing? Vafalaust koma sumir vel frá þeirri skoðun en ég er hrædd um að flestir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins séu illa til þess fallnir að skilja hag almennings. Mér virðist allavega engin ástæða til þess að treysta þessum stjórnvöldum fyrir framtíð barnanna minna. Mér er nóg boðið og verð engu búin að gleyma í næstu kosningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.11.2008 | 10:31
Myndir fyrir Önnu og alla hina...
Hérna koma myndir fyrir litlu systir sem á heima svo langt í burtu núna. Ég er alltaf á leiðinni að blogga um "ástandið" en hef ekki nennt því, það sem mér finnst samt sorglegast er að ég er ekkert hissa á neinu af því sem komið hefur upp í kringum þessa bankamenn. Það er voða leiðinlegt að hafa bara enga trú á hópi fólks, en jæja meira um það síðar.... kannski.
Víst næ ég upp á borðið.....
Svo á Ebba kuldaskó.... og dúkku
Já og afa líka......
Vá hvað Jonni fékk fína Konguló frá Önnu frænku
Hvað ???? drasl hjá unglingnum ????
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.11.2008 | 11:27
Vansvefta húsmóðir......
það er allt við það sama á heimilinu, elsta barnið enn með hækjur og við Jonni druslumst út snemma á morgnana til þess að bera út blöðin fyrir hann. Jonni græðir og græðir og ég líka, því svei mér þá ef ég hef ekki gott af labbinu... svona eftirá allavega. En kl. 6 í morgun þegar klukkan hringdi fannst mér það bæði kvöl og pína að fara fram úr. Ebba var eitthvað óróleg í nótt og var komin uppí, lá helst ofaná mömmu sinni og sú gamla svaf lítið, er bara alveg búin að missa hæfileikann að sofa hvað sem á gengur Það góða er að snjórinn er að mestu farinn svo það var auðvelt að bera út. Það er bara verst að ég er frekar geðvond þegar ég er þreytt.....verri en venjulega.... á þriðjudögum er ég reyndar með marga frábæra nemendur í tímum hjá mér svo ég verð bara að hemja mig og reyna að njóta dagsins.
Við Nonni ætlum á tónleika með Kristjáni Jóhannssyni og sinfó í kvöld. Ég held mér vonandi vakandi yfir þeim, annars bætast hrotur við tónverkin, ekki víst að það yrði vinsælt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.10.2008 | 11:30
Frost og funi!
Góð vika að baki. Afmæli og fimbulkuldi, við Jonni höfum borið út blöðin fyrir Veigar í hörkufrosti og litla stýrið er vel dúðað ofaní vagninn. Nú í morgun er hins vegar nokkurra stiga hiti og rok og erfitt að fóta sig á svellinu. Veigar er kominn á hækjur, hugsanlega með rifinn liðþófa ja eða marinn........ þetta er nú alveg að verða gott með fæturna á honum Veigari. Nú ætla ég að drífa mig og mína út í Hrísey í kvöld og vera þar um helgina, gera sem minnst annað en að njóta hvors annars.
Hafið það gott um helgina kæru vinir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.10.2008 | 15:02
Jonni 10 ára
Í dag er Jón Ólafur, litli skátinn minn 10 ára. Hann er líka að fara í fyrstu 2ja daga útileguna sína upp í Fálkafell um helgina svo spennan er mikil.
Til hamingju Jonni, duglegi strákur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.10.2008 | 11:29
Efnahagsmál
Ég ætla ekki að skrifa um efnahagsmálin þó svo að fyrirsögnin segi annað. Ég fékk smá útrás á síðunni hennar Önnu Málfríðar en ég er hrædd um að ég villist inn á persónulegt skítkast um menn og málefni ef ég sleppi mér. Þó ætla ég að láta í ljósi þá skoðun mína að það sé ekki tilviljun að græðgi sé talin með einum af dauðasyndunum. Þegar einstaklingar og fyrirtæki (bankar meðtaldir) missa sjónar á muninum á gróða og græðgi þá er aldrei von á góðu. Það er ekkert rangt við að hagnast á viðskiptum en það er mikil hætta á algeru siðleysi þegar græðgin hefur undirtökin. Kannski er allt löglegt sem íslensku bankarnir hafa aðhafst en sannarlega margt siðlaust.
Allt í snjó, sumir í fjölskyldunni elska það og aðrir..... elska það minna. Ég er í hjarta mínu ánægð með svo margt og sendi fjölskyldu og vinum hlýjar vetrarkveðjur úr snjónum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.10.2008 | 22:51
Ebba dansar fyrir fjölskylduna!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.10.2008 | 15:50
Myndir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.10.2008 | 15:28
Mývatnssveitin er æði......
Við hjónin áttum alveg rosalega fínan sólarhring í Mývatssveit um helgina. Eftir að vera búin að tékka okkur inn á Hótel Reynihlíð fórum við og skoðuðum fuglasafn Sigurgeirs, þetta er alveg nýtt safn og til fyrirmyndar hvernig sem á það er litið. Húsakynnin falleg og flott hönnuð, uppsetningin aðgengileg og ekki skemmir útsýnið. Það er full ástæða til þess að óska þessari fjölskyldu til hamingju með þetta framtak, ég hlakka bara til að fara með strákana þangað. ( www.fuglasafn.is) Nú næst fórum í Jarðböðin og eftir að vera búin að liggja þar í bleyti í slyddunni fórum við heim á Hótel og hvíldum okkur fyrir kvöldið. Haustveislan byrjaði svo klukkan sjö og stóð langt fram eftir nóttu og ég ætla ekki að gera henni allri skil en þarna fór saman góður matur, góðir drykkir, frábær lifandi tónlist og einstakur félagsskapur. Glæsilegt í alla staði. Mývetningar kunna svo sannarlega að skemmta sér og öðrum, fjöldasöngurinn margraddaður og sérlega glæsilegur. Það voru því alsæl og þreytt hjón sem sóttu börnin sín eftir hádegi á sunnudag, krakkarnir höfðu líka skemmt sér vel hjá Hafdísi og hennar börnum og Ebba var stilltari þar er heima hjá sér..... er það ekki vaninn?
Kreppa hvað! Gengið er allavega hagstætt í Mývatnssveitinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.9.2008 | 13:57
Veturinn minnir á sig
Það var kalt að hjóla í vinnuna í morgun og greinilegt að veturinn er á næstu grösum. Hlíðarfjallið er hvítt og fallegt og nú er bara að taka fram úlpu, húfu og vettlinga og njóta. Annaðhvort það eða flytja til suðlægari landa. Ég er að hugsa um að njóta bara Íslands þrátt fyrir kreppu, bankaskandala, liðónýta ríkisstjórn og vanhæfa embættismenn hjá Akureyrarbæ. Ég hef tekið þá þroskuðu ákvörðun að gera það besta úr því sem ég hef, njóta haustsins þrátt fyrir kulda, gleðjast yfir stilltum og rigningalausum dögum. Gleðjast yfir börnunum mínum, líka þegar þau eru óþekk og knúsa kallinn frekar oftar en venjulega. Ég vona að þessar mótvægisaðgerðir mínar hafi allavega eitthvað að segja þegar kemur að andlegu jafnvægi heimilisins út veturinn.
Þetta þýðir ekki að ég hætti að hafa skoðanir á öllu mögulegu og láti í mér heyra á réttum stöðum þyki mér tilefni til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)